Skoðun

Lýðræði undir byssukjöftum

Vandamálið í Palestínu var ekki Arafat heldur hernámið og landrán gyðinga í trássi við samþykktir Sþ. Þeir eru að verða búnir að ræna öllu landinu og halda palestínsku þjóðinni í heljargreipum stríðsvélar sem flutt er inn beint frá USA. Svo kvarta þeir þegar fólkið reynir að slá frá sér! Hvernig á nú að vera hægt að stofna ríki Palestínumanna? Hvernig myndum við bregðast við ef hingað kæmi fólk sem segðist hafa sögulegan og trúarlegan rétt til þessa lands? Og þetta fólk væri stutt í einu og öllu af mesta herveldi sögunnar. Ætli við tækjum því þegjandi? Við skulum ekki gleypa við því þegar heimspressan reynir að níða Arafat niður og sverta nafn hans að honum gengnum. Hvað hefur heimspressan gert til að leiðrétta himinhrópandi óréttlætið í Palestínu? Þar sem ástandið er nú að sögn kunnugra miklu verra en nokkru sinni var í S-Afríku á tímum Apartheid. Hvað segir hún um fjöldamorðin sem Bandaríkjamenn stunda á óbreyttum borgurum í Írak um þessar mundir? Fátt segir af slíku. Í USA má náttúrulega ekki sýna lík eða þvílíkan sóðaskap í fjölmiðlum. Þar eru menn uppteknir af að fara í kirkju og lofa guð kærleikans. Allt tal um lýðræði í Palestínu er út í loftið meðan múrar eru byggðir, eldflaugum skotið inn í íbúðahverfi, hús brotin niður með jarðýtum í hundraðatali, raf-, vatnsleiðslur og ólífutré eyðilögð, aðskilnaðarvegir lagðir milli landránsbyggða og börn drepin fyrir að kasta grjóti. Ætli fólk stundi mikið lýðræði við slíkar kringumstæður? Ætli það sé sérstaklega uppveðrað yfir hugmyndinni sem kvalararnir eru að reyna að troða oní það? Ingólfur Steinsson, ritstjóri og tónlistarmaður Sjá pistilinn Tómlegt um að litast í Arafatlandi



Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×