Skoðun

Af hverju samdi Snorri Eglu?

Egils saga Skallagrímssonar er eitt af höfuðritum íslenskra fornbókmennta og meðal frægustu Íslendingasagna. Talið er að hún sé samin á fyrri hluta þrettándu aldar og leynir sér ekki að höfundurinn hefur verið menntamaður, vel lesinn og glöggur á samfélag sitt og samtíð. Nafn hans kemur hvergi fram í handritum sögunnar sem varðveist hafa en lengi hafa fræðimenn þó talið sterkar líkur á því að hann sé enginn annar en Snorri Sturluson höfundur Heimskringlu og Eddu.

Í nýrri bók, Skáldið í skriftinni, sem Torfi H. Tulinius prófessor við Háskóla Íslands hefur samið er Egils saga tekin til rannsóknar á grundvelli þeirrar hugmyndar að Snorri sé höfundurinn og hafi samið verkið í iðrunarskyni og til að stuðla að sáttum meðal Sturlunga, einnar voldugustu ættar íslenska þjóðveldisins. Sturlungar ráku ættir sínar til Egils Skallagrímssonar en um þann kappa höfðu skapast miklar sagnir og um hann lék ævintýra- og hetjublær á dögum Snorra.

Í bók sinni gengur Torfi Tulinus skrefi lengra en aðrir fræðimenn. Hann telur að Egils saga sé gegnsýrð kaþólskum viðhorfum. Úr atburðum hennar mega lesa margvíslegar líkingar við atvik og hugsun í Heilagri ritningu. Þá álítur hann verkið miklu persónulegra en aðrar Íslendingasögur. Að baki búi ekki aðeins áhugi á að segja sögu heldur megi lesa úr verkinu ásetning með skriftunum. Torfi heldur því fram að Snorri hafi viljað bæta fyrir þær syndir sem hann drýgði í deilum sínum við bróður sinn, Sighvat, og Sturlu son hans.

Torfi tengir þannig söguna annars vegar við hugmyndaheim kirkjunnar manna og hins vegar við samtímaátök þrettándu aldar, sem stundum er kölluð Sturlungaöld eftir ætt Snorra. Hann leiðir rök að kenningu sinni með ótal dæmum úr Egils sögu sem hann finnur hliðstæðu við í Biblíunni. Einnig með því að rekja það sem líkt er með ævi Egils Skallagrímssonar og Snorra.

Í bókinni er Torfi óhræddur við að feta nýjar slóðir og prófa djarfar hugmyndir og gefur það verkinu aukið gildi. Meðal nýstárlegra hugmynda sem hann setur fram er að Egils saga hafi verið rituð í tilefni af fjölmennri samkomu sem Snorri hélt í Reykholti árið 1241. Vitað er að þá var þar haldið brúðkaup mágkonu hans, Þuríðar Ormsdóttur, og frænda hans Tuma Sighvatssonar. Brúðkaupinu var ætlað að sætta höfðingjaættir Oddaverja og Sturlunga.

Skoðanir á Vísi.is leituðu til tveggja fræðimanna sem gjörþekkja Egils sögu og spurðu um álit þeirra á kenningum Torfa Tuliniusar. Þetta eru þeir Ármann Jakobsson og Jón Hnefill Aðalsteinsson. Þökkum við þeim kærlega fyrir þátttökuna.

Ármann skrifar: "Eitt af því sem er jákvætt við bók Torfa er hvernig hann tekur hugmyndir sem í sjálfu sér eru ekki nýjar og tekur þær alvarlega, vinnur með þær og setur í nýtt samhengi þannig að við neyðumst til að hugsa um það sem við þóttumst vita. Mér finnst þannig áhugavert hvernig hann lýsir listaverki á borð við Egils sögu sem dýrgrip og setur það í samhengi við bæði málverk og ljóðsögur erlendis (bls. 209 o.áfr.). Mér kom strax í hug Úlfur Uggason sem flytur mikla goðsagnadrápu í brúðkaupi út frá myndum í nýjum skála sem einnig eru listaverk og þessum samruna tveggja myndrænna listforma er svo haldið til haga í enn einu, Íslendingasögunni Laxdælu. Þannig að þessi hugmynd er heillandi, burtséð frá því sögulega samhengi sem Torfi vill setja hana í.

 Róttækustu hugmyndir Torfa eru þó að minni hyggju annars vegar hugmyndin um skriftirnar og að listaverk á borð við Egils sögu megi skilja í samhengi við skriftir og hugmyndir um iðrun. Hins vegar hvernig hann blandar hinu ómeðvitaða í málið, bendir á að ekki þurfi öll sköpun að vera yfirveguð gjörð listamanns sem líti á sig sem slíkan. Þessi hugsun hefur skipt miklu máli í umræðu um listrænt eðli þjóðsagna og annarra munnlegra frásagna sem eru listaverk án þess að vera endilega sköpunarverk eins höfundar. Mér finnst hún ögrandi og það sama gildir um skriftahugmyndina en mér segir hugur um að þessar tvær hugmyndir muni vekja mest viðbrögð og hugsanlega andóf.Annað mál er svo spurningin um hver skrifaði Egils sögu. Ég hef alltaf verið fremur ósáttur við hugmyndina um Snorra Sturluson sem höfund Egils sögu og er það enn. Á hinn bóginn finnst mér Torfi eiga lof skilið fyrir það hversu alvarlega hann tekur þá hugmynd og les ævi Snorra saman við Egilssögu með aðferð sem mér finnst áhugaverðari og ekki eins billeg og flestar fyrri tilraunir til að gera fortíðarsögur 13. aldar að hálfgerðum lykilsögum.Ég er þannig fjarri því að vera sammála öllu sem Torfi segir en finnst þessi bók vera áskorun og það er að minni hyggju eitt af því jákvæðasta sem hægt er að segja um fræðibók."

Jón Hnefill sendi þessar línur: "Bók Torfa H. Tuliniusar, Skáldið í skriftinni – Snorri Sturluson og Egils saga, er metnaðarfullt verk og mikið að vöxtum. Hann varpar í upphafi fram nýstárlegri og djarfri tilgátu sem hann undirbyggir á 250 bls. að hafi verið sett fram með réttum rökum. Er með ólíkindum hve gott honum verður til fanga í kristnum hugarheimi þrettándu aldar, þar sem hann fetar þó stundum fimlega einstigið á milli kristinnar kenningar og óbeislaðs ímyndunarafls. Og hvort sem maður er sammála eða ósammála Torfa í einstökum atriðum, þá hrifst maður af frumlegum efnistökum hans og ódrepandi elju við að rökstyðja þær kenningar sem hann hefur sett sér að verja. Bókin er mjög vel skrifuð, ef svo hversdagslega má taka til orða, og ólíklegt að lesandi leggi hana frá sér fyrr en að loknum lestri. Í þessum fáu orðum er ekki ætlunin að kveða upp dóm yfir bók Torfa, en hann rennir nýjum og traustum stoðum undir þá tilgátu sem sett var fram fyrir tæpri öld, að Egils saga væri höfundarverk og Snorri Sturluson höfundurinn.

Að gefnu tilefni mun ég þó gera athugasemd við eitt atriði í bókinni. Í kafla sem heitir: Kristið kvæði lagt í munn heiðingja? (bls. 106) tekur Torfi til sérstakrar umræðu fimmta erindi Sonatorreks sem hann telur ort undir áhrifum af frásögn í Biblíunni. Erindið er þannig:

Þó munk mitt

ok móður hrƒr

fƒðr fall

fyrst of telja,

þat berk út

ór orðhofi

mærðar timbr

máli laufgat.

Þetta eruindi telur Torfi ort undir áhrifum frá sögunni um vönd Arons. Í Stjórn er sú frásögn á þessa leið:           

Gud mællti vit Moysen. Tak þu af Gydingum uondu tolf ur kynsþattum þeirra .xii. ok rita þu huers þeirra nafn yfir huers þeirra uendi. Nafn Aarons skaltu rita i kyni Leui. Þu skalt setia uonduna i tjalldbvdinne. þar sem ek mællti vit þik. ok mun ek syna huern ek uel. þuiat eg mun giora þess uond med berki ok næfr ok alldine. er ek vel. Moyses tok .xii. uondu adra enn Aarons uond ok setti i tjalldbudinne. Ok um morguninn eptir fanzt Aarons vondr grænn ok groinn berki ok næfri ok alldine. Þa tok huerr þeirra vit þeim vendi sem atti. ok sau allir þa iartegn er ordin var aa uendi Aarons. Gud mællti þa vit Moysen. Settv uond Aarons i tjalldbudinne til vitnis þessa atburdar. er giorzt hafdi aa uendinum. Moyses giordi suo sem gud baud (IV. Mosebog 17. Cap 129).

Torfi telur þessa frásögn tengjast erindi Sonatorreks í fimm atriðum (bls. 109): Timbur eða lof (1) er borið út eða kveðið (2) úr hofi eða hugskoti (3). Það hefur laufgast, þ. e. það hefur verið gætt fegurð (4) fyrir tilverknað orðsins eða færni skáldsins (5).

Þó ég sé allur af vilja gerður, þá get ég ekki séð hugsanlegt samband, hvað þá knýjandi, á milli frásagnarinnar í Stjórn og fimmta erindis Sonatorreks.  En hvað sem því líður þá á Torfi þakkir skildar fyrir stórbrotið og metnaðarfullt rit sem er fræðimönnum kjörið umræðuefni".



Skáldið í skriftinni er gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi og Reykjavíkur-Akademíunni.



gm@frettabladid.is




Skoðun

Sjá meira


×