Sport

Ingólfur sagði ósatt

Máli Ingólfs Axelssonar og Þórs virðist hvergi nærri vera lokið en um helgina kom fram myndband af hasarnum í íþróttahöllinni á Akureyri. Á þessu myndbandi sést greinilega að ummæli Ingólfs eftir leikinn standast engan veginn og að hann sagði hreinlega ósatt. Í viðtali við Fréttablaðið eftir leikinn sagði Ingólfur: "Strákarnir í 3. flokki Þórs byrja að ögra mér þegar ég geng í átt að klefanum og stíga fyrir mig. Þá ýtti ég þeim bara í burtu en um leið sé ég að allt verður vitlaust. Ég var sjálfur alveg rólegur." Á myndbandinu sést greinilega að Ingólfur tekur lykkju á leið sína til búningsklefa, sem var greið, og stígur þrjú skref til vinstri svo hann geti stuggað við einum 3. flokks stráknum. Einnig sést á myndbandinu að Ingólfur er ansi æstur á þessum tíma en ekki eins rólegur og hann vildi vera láta. Fréttablaðið hafði samband við Ingólf í gær og spurði hann að því af hverju hann hefði sagt ósatt. "Ég er úti í París og á eftir að sjá þetta myndband. Ég greindi bara frá hlutunum eins og mér fannst þeir hafa verið á þessum tíma. Það er nú oft þannig að maður upplifir hlutina öðruvísi þegar maður er mjög heitur," sagði Ingólfur. Fréttablaðið hafði einnig samband við fyrirliða Framara, Guðlaug Arnarsson, en hann ver ekki gjörðir Ingólfs þó hann vilji sjá ákveðnar breytingar á dómi aganefndar. "Alvarleikinn í broti Ingólfs sést greinilega á þessu myndbandi en dómurinn er samt ekki í samræmi við aðra dóma aganefndar í vetur. Brot Þórsarana sést líka greinilega á myndbandinu og þeir verða að axla sína ábyrgð í þessu máli. Ef aganefndin ætlar að halda þessu banni á Ingólfi til streitu þá verða þeir að þyngja refsinguna sem Þór fékk," sagði Guðlaugur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×