Innlent

Deilt um áreiðanleikann

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Af þeim sem taka afstöðu í skoðanakönnun Gallup um fylgi frambjóðenda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vilja 62 prósent sjá Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í fyrsta sæti framboðslista flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum en 38 ­prósent­ Gísla Martein Baldursson.

Ef einungis er litið til þeirra sem telja líklegt að þeir taki þátt í sjálfu prófkjörinu segjast 54 prósent vilja sjá Vilhjálm í fyrsta sæti en 46 prósent Gísla. Könnunin var gerð 5.-31. október og tóku 1.156 Reykvíkingar þátt. Svarhlutfall var um 62 prósent. Sé einungis litið til svarenda síðustu vikunnar, 243 manna, eru niðurstöðurnar í svipuðum dúr.

Stuðningsmenn Gísla Marteins telja að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir af niðurstöðum könnunarinnar þar sem elsti hluti svaranna sé of gamall og nýrri svör séu of fá. Þeirra eigin athuganir bendi til gagnstæðrar niðurstöðu og því segjast þeir fullir bjartsýni fyrir prófkjörið, sem hefst á morgun.

"Þetta er könnun sem er gerð af Gallup og Gallup er virtasta fyrirtækið á sínu sviði á landinu og jafnvel í heiminum öllum. Könnunin er gerð út frá þeirra aðferðafræði og þar við situr," segir Hlynur Guðjónsson, kosningastjóri Vilhjálms um gagnrýni stuðningsmanna Gísla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×