Sport

Garcia enn ófundinn

Forysta Handknattleikssambands Íslands og landsliðsþjálfarinn Viggó Sigurðsson munu taka ákvörðun, um hvort stórskyttan Jaliesky Garcia verði í landsliðshópnum sem fer á heimsmeistaramótið í Túnis, í dag. Garcia hefur ekkert látið í sér heyra frá því að hann fór til Kúbu til að vera viðstaddur jarðarför föður síns á milli jóla og nýárs og sagði Viggó í samtali við Fréttablaðið í gær að framkoma Garcia væri furðuleg. "Hann á að mæta hjá Göppingen á morgun og það verður gaman að sjá hvort hann birtist þar. Við höfum reynt allar leiðir til að hafa uppi á honum á Kúbu en ekki haft erindi sem erfiði. Við vonumst til að heyra í honum í dag eða á morgun og fá skýringar á fjarveru hans og munum taka ákvörðun í framhaldinu," sagði Viggó í gær. Hann sagði aðspurður að það væri ekkert stórmál ef Garcia yrði ekki með í Túnis. "Það er enginn ómissandi en ég neita því ekki að ég hafði hugsað mér að nota Garcia í skyttuhlutverkið. Við eigum hins vegar menn eins og Markús Mána Michaelsson og Vilhjálm og ég treysti þeim fullkomlega til að leysa þessa stöðu," sagði Viggó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×