Sport

Viggó ánægður með Petersson

Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari var mjög ánægður með Alexander Petersson í frumraun hans með íslenska landsliðinu í leikjunum tveimur gegn Svíum í síðustu viku. Viggó sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að innkoma Peterssons í landsliðið hefði verið mjög jákvæð. "Ég er mjög ánægður með hann. Hann smellur vel inn í hópinn og spilaði mjög vel bæði í vörn og sókn í leikjunum tveimur gegn Svíum. Það var alveg greinilegt að hann var hungraður og langaði mikið til að sýna sig og sanna. Ég vænti mikils af honum í Túnis og tel að hann geti verið í lykilhlutverki þar." Aðspurður um hvaða stöðu Petersson myndi sðila í Túnis sagði Viggó að líklegast yrði hann mest í hægra horninu. "Hann getur líka spilað fyrir utan og ég treysti honum til að leysa þá stöðu en við erum með bæði ólaf Stefánsson og Einar Hólmgeirsson þar þannig að það má segja að hægri helminguirnn sé ótrúlega vel mannaður," sagði Viggó. Petersson byrjaði báða leikina gegn Svíum í hægra horninu en Viggó sagði það ekki vera ávísun á sæti í byrjunarliðinu í fyrsta leik í Túnis. "Það er enginn númer eitt í neinni stöðu. Þeir sem standa sig spila - svo einfalt er það," sagði Viggó og benti á að Einar Hólmgeirsson hefði ýtt Ólafi Stefánssyni á bekkinn í seinni leiknum gegn Svíum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×