Innlent

Fjárhagsáætlunin í uppnámi

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar er í uppnámi eftir að Skipulagsstofnun vísaði aðalskipulagstillögu meirihluta Sjálfstæðismanna heim í hérað á ný. Í fjárhagsáætlun 2005, sem samþykkt var 24. nóvember síðastliðinn með atkvæðum meirihluta sjálfstæðismanna, er ráðgert að selja land Hrólfskálamels og Suðurstrandar og er áætlað söluverð 350 milljónir króna. Í fréttatilkynningu frá fulltrúum Neslistans á Seltjarnarnesi segir að ljóst sé að ekki verði af sölu þessara landsvæða fyrr en aðal- og deiliskipulag hafi verið samþykkt en það kunni að dragast verulega á langinn vegna athugasemda Skipulagsstofnunar. Fjárhagsáætlun bæjarins sé því í uppnámi vegna þessarar nýju stöðu í skipulagsmálunum. Í bréfi Skipulagsstofnunnar er meðal annars lagt til að í aðalskipulagi verði sett ítarlegri ákvæði um hæðir húsa, húsagerðir og annað yfirbragð fyrirhugaðrar byggðar þannig að bindandi forsendur liggi fyrir við útfærslu deiliskipulagsins. Fulltrúar Neslistans segjast hafa bent á þessi atriði í bæjarstjórn og fara fram á að opinn íbúafundur verði haldinn um skipulagsmál bæjarins þar sem bæjarfulltrúar og nefndarmenn í skipulags- og mannvirkjanefnd geri grein fyrir afstöðu sinni í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×