Sport

Spila áfram ef Viggó velur mig

"Það var kannski við þessu að búast með öllum þessum nýju strákum og menn eru að slípa sig saman," sagði Ólafur Stefánsson frekar kátur eftir leikinn gegn Alsír þótt hann hafi verið óánægður með niðurstöðuna í mótinu. Hann býst fastlega við því að gefa áfram kost á sér í landsliðið. "Ég ætla að spara yfirlýsingarnar að þessu sinni," sagði Ólafur og hló. "Ætli ég reyni ekki að halda þessu áfram svo lengi sem ég er valinn og Viggó hefur áhuga á að nota mig. Ég er til í að gera það sem ég er beðinn um að gera." Það gekk á ýmsu hjá landsliðinu í Túnis en hvaða lærdóm getur landsliðið dregið af þessu móti að mati Ólafs. "Að við verðum að vinna Rússa til að gera eitthvað á svona mótum. Ég lærði mikið á ÓL í sumar en minna af þessu móti. Ungu strákarnir hafa samt eflaust lært mikið," sagði Ólafur en hann var ánægður með frammistöðu þeirra. "Mér líst mjög vel á Alexander enda góður bæði í vörn og sókn. Mér líst líka vel á Arnór og Einar sem er einhver skotfastasti maður sem ég hef séð. Markús er líka búinn að vera mjög góður en þessir strákar verða að vinna aðeins í löppunum á sér. Þeir eru svolítið staðir og þá vantar aðeins meiri mýkt og snerpu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×