Sport

Dagur féll á lyfjaprófi

Dagur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, féll á lyfjaprófi fyrir Ólympíuleikana í Aþenu. Við nánari skoðun kom hins vegar í ljós að í líkama hans er óvenjumikið magn af karlhormónum af náttúrulegum völdum. Var hann því sýknaður. Dagur féll á lyfjaprófi sem tekið var á landsliðsæfingu í handknattleik í Austurbergi 28. júlí síðastliðið sumar en æfingin var liður í undirbúningi fyrir ÓL í Aþenu. Þegar sýni höfðu verið greind kom í ljós að hlutfall testósteróns í sýni Dags var yfir þeim mörkum sem leyfð eru á alþjóðlegum bannlistum og þar með á listum ÍSÍ yfir bönnuð lyf og aðferðir í íþróttum. Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ rannsakaði málið ítarlega í kjölfarið. Fimm þvagsýni voru í heildina tekin hjá Degi Sigurðssyni. Þar af voru fjögur sýni tekin á vegum Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ og voru þau greind af rannsóknarstofu Karolinska-háskólasjúkrahússins í Huddinge í Svíþjóð sem uppfyllir kröfur Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) um greiningar á þvagsýnum íþróttamanna og hefur verið vottuð sem slík. Eitt sýnanna var tekið á Ólympíuleikunum í Aþenu og rannsakað á rannsóknastofu í Aþenu. Niðurstaða Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ er sú að hátt T/E-hlutfall Dags stafi ekki af utanaðkomandi testósteróni eða öðrum efnum sem eru á alþjóðlegum bannlistum. Hún er í samræmi við sérfræðiálit Dr. Mats Garles, yfirmanns rannsóknarstofunnar í Huddinge, og jafnframt í samræmi við greiningu annarra sýna sem rannsóknastofan hefur áður haft til rannsókna. Af framangreindu fæst ekki séð að Dagur Sigurðsson handknattleiksmaður hafi gerst brottlegur við 44. grein laga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um lyfjamisnotkun og telst því málinu lokið og Dagur sýknaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×