Erlent

Kippur kominn í kosningabaráttuna

Fjörkippur er loksins hlaupinn í kosningabaráttuna í Danmörku en þar verður kosið til þings á morgun. Skoðanakannanir benda til þess að það dragi saman með stjórn og stjórnarandstöðu. Sighvatur Jónsson fylgist með kosningabaráttunni í Danmörku. Stjórnin heldur þó velli samkvæmt skoðanakönnun Megafone sem birt var í morgun. Frjálslyndi flokkurinn, Venstre og Íhaldsflokkurinn mynda stjórnina hér í Danmörku með stuðningi danska Þjóðarflokksins og samtals hafa flokkarnir 98 þingsæti af 179. Samkvæmt könnuninni missir stjórnin fimm menn og fær 93 þingsæti. Allt getur gerst segir Mogens Lykketoft, formaður Jafnaðarmannaflokksins, í fjölmiðlum en umræða um útreið flokksins hefur verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum. Jafnaðarmenn mælast nú með 25% fylgi, fjórum prósentum minna en í kosningunum 2001. Venstre, flokkur forsætisráðherrans Anders Fogh Rasmussens, mælist með 29%, tveimur prósentum minna en fyrir fjórum árum. Stuðningsflokkurinn, Þjóðarflokkurinn, stendur í stað með 12% en mesta athygli vekur að róttækir vinstrimenn, gamalt klofningsframboð frá Venstre, bætir við sig og mælist nú með 10% fylgi en fékk 5% í síðustu kosningum. Formaður þess flokks, Marianne Jelved, gæti því verið í ansi áhugaverðri stöðu að loknum kosningunum en hefur þó sagt að hún vilji stjórnarskipti. Viðbrögð Venstre við þessari þróun eru þau að varaformaðurinn segir að atkvæði til róttækra sé atkvæði greitt jafnaðarmönnum. Jafnaðarmenn tala mikið um danska lífeyrissjóðskerfið á endasprettinum sem umræða hefur verið um að geti ekki staðið undir sér í framtíðinni. Ég sat núna hádegisfund með Svend Auken sem var fomaður jafnaðarmanna á árunum 1987-1992 og hann talaði um nauðsyn þess að atvinnurekendur komi að því að skapa fleiri störf fyrir fólk yfir fimmtugt. Hann talaði einnig um framtíð Lykketofts og sagði hana trygga, hver svo sem kosningaúrslitin verða. Það er sem sagt hiti í lokaspretti kosningabaráttunar í Danmörku en danska veðurstofan spáir ágætu kosningaveðri, sólríku og hitastigi um frostmark.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×