Erlent

Matargjafir notaðar pólitískt

Stjórnarandstaðan í afríkuríkinu Zimbabwe segir að ríkisstjórnin noti matargjafir til þess að þvinga fólk til stuðnings við sig í komandi kosningum. Alþjóðlegar hjálparstofnanir sögðu í síðasta mánuði að tæplega sex milljónir manna líði skort í Zimbabwe en íbúar landsins eru tæpar þrettán milljónir. Robert Mugabe, forseti landsins, sagði þetta vera hreinan áróður sem væri ætlað að skemma fyrir sér í kosningunum. Á síðasta ári afþakkaði forsetinn matvælahjálp og sagði að landsmenn hefðu nóg að bíta og brenna. Nokkru síðar kom í ljós að ríkisstjórnin hafði keypt miklar kornbirgðir á alþjóðlegum mörkuðum og að fullyrðingar um metuppskeru í landinu sjálfu voru hreinn uppspuni. Dagblaðið The Herald, sem er hliðhollt ríkisstjórninni, hefur nú skýrt frá því að ríkisstjórnin ætli að útdeila fimmtán þúsund tonnum af korni til 1,5 milljóna manna sem líði skort. Renson Gasela, einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar, segir að ríkisstjórnin noti matargjafirnar til þess að þvinga fólk til stuðnings við sig. Þeir hafi fengið fregnir af því frá mörgum stöðum að til þess að fá gjafakornið verði menn að framvísa flokksskírteinum til þess að sanna að þeir styðji forsetann. Mannréttindasamtök hafa lengi haldið því fram að ríkissjórnin noti matvæli í pólitísku skyni en Mugabe segir að það sé lygi, eins og allt annað sem frá Vesturlöndum komi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×