Sport

ÍR og HK mætast í úrslitaleiknum

ÍR-ingar og HK-menn tryggðu sér í dag sæti í úrslitum SS-bikars karla í handknattleik en leikurinn fer fram í Laugardalshöll 26. febrúar næstkomandi. ÍR-ingar lögðu Eyjamenn að velli, 34-27, í hörkuleik í Austurbergi þar sem afar slök dómgæsla setti svip sinn á leikinn. Það er varlega sagt að heldur hafi hallað á gestina frá hendi dómaranna og áttu Eyjamenn við ramman reip að draga allan leikinn. ÍR leiddi með þremur mörkum, 18-15, í hálfleik og náði mest níu marka forystu í síðari hálfleik. Roland Eradze, markvörður ÍBV, fékk að líta rauða spjaldið fyrir að mótmæla dómi ansi harkalega og þótt sigur ÍR-inga hafi verið öruggur og sanngjarn þá fengu þeir full mikla hjálp frá dómurum leiksins, þeim Gísla Hlyni Jóhannssyni og Hafsteini Ingibergssyni. Það vakti athygli að stór hópur stuðningsmanna ÍBV yfirgaf húsið þegar tólf mínútur voru til leiksloka eftir að hafa látið ófriðlega í stúkunni. HK-menn fóru með sigur af hólmi gegn Gróttu/KR á Seltjarnarnesi, 29-25. HK leiddu allan tímann og var sigur þeirra öruggari en tölurnar gefa til kynna. Björgvin Gústavsson átti stórkostlegan leik í marki HK og varði 29 skot.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×