Erlent

Kjarnorkuvopnaeign helsta ógnin

Kjarnorkuvopnaeign Asíuríkja er meðal helstu ógna sem Bandaríkjamenn þurfa að fylgjast með að mati yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Hryðjuverk eru áfram ofarlega á lista yfir ógnir. Það kvað við nýjan tón í vitnisburði Porters Goss, yfirmanns leyniþjónustunnar CIA, á Bandaríkjaþingi í gær. Hann gerði þar grein fyrir þeim ógnunum sem steðjuðu að Bandaríkjunum og í ár virðist sem Kína sé á þeim lista. Goss ræddi umbætur hjá kínverska hernum og sagði þær breyta valdajafnvæginu í Asíu, Bandaríkjamönnum í óhag. Einkum var hann á því að kjarnorkuvopnabúri Kínverja hefði fleygt fram og að þeir væru nú færir um að valda verulegum usla í Taívan. Hernaðarmáttur Kínverja væri í vaxandi mæli ógn við bandarískar hersveitir á svæðinu. Hann taldi Kínverja staðráðna í að bregðast við því sem þeir teldu tilraunir Bandaríkjamanna til að einangra Kínverja. Fram til þessa hafa yfirmenn CIA ávallt lagt áherslu á samvinnu Bandaríkjanna og Kína í vitnisburði sínum á Bandaríkjaþingi og því þykir orðaval Goss í gær bera vitni um breytta hugsun hjá leyniþjónustunni - ef ekki bandarískum stjórnvöldum yfirleitt. Hermt er að Bandaríkjamenn hafi af því töluverðar áhyggjur að átök geti brotist út á milli Kína og Taívan en sérfræðingar í málefnum ríkjanna telja vaxandi viðskipti og samgöngur draga úr líkunum á því. Kjarnorkuvopnabúr fleiri Asíuríkja eru þó þess eðlis að ástæða sé til þess að fylgjast með að mati Goss. Hann segir upplýsingar CIA benda til þess að vopnabúr Norður-Kóreumanna sé mun stærra en talið var þegar Bush forseti nefndi Norður-Kóreu sem hluta af öxulveldi hins illa. Goss vildi þó ekki gefa upp hversu stórt búrið væri nú talið eða hvers vegna, þar sem þær upplýsingar væru trúnaðarmál. Hann sagði hins vegar liggja fyrir að fleira en kjarnorkuvopn væru ofarlega á lista stjórnvalda í Pjongjang; þar væri til að mynda unnið að þróun sýkla- og efnavopna og hugsanlega væri til nokkurt magn slíkra vopna. Að auki væru Norður-Kóreumenn fúsir að selja hverjum sem er upplýsingar um hvernig smíða ætti vopn af því tagi sem þeim hefði tekist að þróa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×