Innlent

Neysla einstæðra milljón umfram te

Útgjöld heimila vegna neyslu voru fjórðungi hærri árið 2002 en 1995 að því er fram kom í svari Davíðs Oddssonar, ráðherra Hagstofu Íslands, við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttir, þingmanns Samfylkingarinnar. "Hækkun á útgjöldum vegna neyslu stafar fyrst og fremst vegna þess að neysla er einfaldlega meiri nú en áður," segir Jóhanna. Hún bendir jafnframt á að athyglisvert sé að skoða hvernig aukningin skiptist milli fjölskyldugerða. Neysluútgjöld hjóna og sambúðarfólks hafa aukist talsvert meira en hjá einstæðum foreldrum. Hjón og sambúðarfólk eyddu fjórðungi hærri upphæð í neyslu árið 2002 en átta árum fyrr en einstæðir foreldrar eyddu um 16 prósentum hærri upphæð. Meðalneysla barnlausra hjóna og sambúðarfólks jókst um fjórðung á tímabilinu, eða úr rúmlega 2,9 milljón króna í 3,7 milljónir. Neysla hjóna og sambýlisfólks með börn jókst um sama hlutfall en fór úr 3,9 milljónum í 4,9 milljónir að meðaltali á ári, að sögn Jóhönnu. Útgjöld einstæðra foreldra jukust minnst, eða um rúm 8 prósent. Einstæðir foreldrar eyddu um 2,8 milljónum í neyslu á ári að meðaltali árið 1995 en um 3 milljónum árið 2002. Einstaklingar eyddu um 11 prósentum meira vegna neyslu árið 2002 en átta árum áður og jókst neysla þeirra úr 1,8 milljónum í um tvær milljónir. Jóhanna bendir á að þegar neysluútgjöldin eru borin saman við meðaltekjur ársins 2003 komi í ljós hve mikill hluti tekna einstaklinga og einstæðra foreldra fari í neyslu. Hún bendir á þá staðreynd að stærsti hluti einstæðra foreldra er konur og að meðaltekjur kvenna voru undir tveimur milljónum árið 2003. Útgjöld einstæðra foreldra á árinu 2002, á verðlagi ársins 2004 hafi hins vegar verið nálægt 3 milljónum. "Um eina milljón virðist því vanta til að meðalatvinnutekjur einstæðra foreldra hrökkvi fyrir neysluútgjöldum eins og þau eru skilgreind hjá Hagstofu Íslands," segir Jóhanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×