Erlent

Sþ leita morðingja Hariris

Hver drap Rafik Hariri? Sérstök rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna á að komast að því en ekki er með öllu ljóst hvort að alls staðar sé áhugi fyrir því að svara spurningunni. Að öryggisráðið skuli hafa beðið framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að senda sérstaka rannsóknarnefnd til Líbanons að skoða morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, sýnir vel hversu mikil spenna hefur myndast í kjölfarið og að málið teygir anga sína langt yfir landamæri Líbanons. Nefndin kom í dag til Beirút og hóf störf. Stefnt er að því að niðurstöður verði kynntar innan fjögurra vikna að sögn Peters Fitzgeralds, formann nefndarinnar. Líbönsk stjórnvöld voru í upphafi ekki hrifin af rannsókninni en samþykktu síðar að starfa með nefndinni, sem ráðherrar hittu að máli í dag. Suleiman Franjieh, innanríkisráðherra Líbanons sagði að allt yrði opið fyrir nefndarmenn og að þeir muni skýra stjórnvöldum frá áliti sínu. Sýrlensk stjórnvöld, sem grunuð eru um aðild að morðinu, tilkynntu í dag að þau hygðust færa hersveitir sínar í Líbanon að landamærunum sem mörkuð voru í kjölfar borgarastríðsins í landinu sem lauk árið 1990.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×