Innlent

Segir blað brotið í sögu flokksins

Formaður Landssambands framsóknarkvenna segir brotið blað í sögu Framsóknarflokksins með ákvörðun um að efla jafnrétti kynjanna innan flokksins. Samkvæmt henni skuli hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40 prósent við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður. Á flokksþingi Framsóknarflokksins sem lauk í gær var meðal annar samþykkt að breyta lögum Framsóknarflokksins þannig að við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista skuli hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40 prósent nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Una María Óskarsdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna, segir í grein á vef Framsóknarflokksins að samþykktin marki djúp spor í sögu framsóknarkvenna og sögu flokksins. Hún telur að ákvörðunin um að efla jafnrétti innan flokksins muni án efa leiða flokkinn til aukinna áhrifa og framgöngu í íslenskum stjórnmálum. Mikilvægt sé að efla jafnrétti og lýðræði sem eigi að vera undirstöður samfélagsins. Aðspurð hvaða áhrif þetta hafi til lengri tíma litið fyrir konur í flokknum segir Una að búast megi við því að fleiri konur stígi fram og verði með. Það skipti flokkinn máli aði í öllum trúnaðar- og ábyrgðarstöðum séu einstaklingar af báðum kynjum og því sjái Landssambandið fram á að hlutur kvenna muni vænkast verulega og það hljóti að vera flokknum gott.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×