Innlent

VG segir borgarstjóra í rétti

Deilt var um það á fundi borgarstjórnar í gær, hvort Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri hefði haft umboð til að skrifa undir viljayfirlýsingu um að ganga til viðræðna við ríkið um sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Sjálfstæðismenn vildu að gengið yrði til atkvæða um viljayfirlýsinguna, vegna efasemda Vinstri-grænna um söluna, en þeirri tillögu var vísað frá. Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, sagði augljóst að borgarfulltrúar R-listans þyrðu ekki að greiða atkvæði um þetta mál, sem þýddi að borgarstjórinn hefði ekki haft umboð til undirskriftarinnar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, sagði ótrúlegt að borgarstjóri þyrði ekki að setja eigin viljayfirlýsingu undir dóm borgarstjórnar. Slíkt staðfesti vandræðagang og klofning innan R-listans um málið. Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi R-listans fyrir hönd Vinstri-græna, sagði borgarstjóra hafa fengið umboð borgarráðs í apríl í fyrra og þakkaði borgarstjóra fyrir að vinna vinnuna sína. Vakti það undran borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Helgi Hjörvar minnti á að umboð borgarstjóra hefði einnig verið samþykkt af fulltrúum Sjálfstæðisflokks í borgarráði og undraðist því að minnihlutinn væri að efast um umboð borgarstjóra nú. Björk segir að einungis sé um að ræða viljayfirlýsingu um að fara í viðræður um söluferlið og gerir ráð fyrir að ýmislegt verði skoðað í því ferli, viðræður hljóti að taka mið af því sem hefur verið í umræðunni að undanförnu. Meðal þess sem rætt var á fundi borgarstjórnar í gær, var sá möguleiki að selja ekki hlut borgarinnar í Landsneti, sem á grunnnet Landsvirkjunar, þar sem slíkt gæti þýtt að Orkuveita Reykjavíkur þyrfti að kaupa sig inn á net keppinauts í framtíðinni. Hvað varðar tillögu sjálfstæðismanna um að ganga til atkvæða um viljayfirlýsinguna sagði Björk í samtali við Fréttablaðið að hún hefði einungis verið sett fram til að ala á tortryggni og sundrung sem sé ekki til staðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×