Erlent

Vilja afsögn forseta Líbanons

Lykilmenn innan stjórnarandstðunnar í Líbanon vilja að Emile Lahoud, forseti landsins, segi af sér og feti þar með í fótspor ríkisstjórnar landsins sem óvænt sagði af sér í fyrradag. Háttsettur maður innan stjórnarandstöðunnar sagði í viðtali við fréttastofu Al-jazeera í gær að afsögn forsetans myndi skapa nýjan kafla í samskiptum Líbanons við Sýrland. Hvort sem forsetinn segir af sér eða ekki er fastlega gert ráð fyrir að innan sólarhrings liggi fyrir tillaga um hver skuli taka við embætti forsætisráðherra Líbanons. Hans fyrsta verk verður væntanlega að fara fram á brottfluttning sýrlenskra hermanna frá landinu.  Í viðtali við tímaritið Time sem birtist í gær fullyrðir forseti Sýrlands að herliðið fari frá Líbanon á allra næstu mánuðum. Ákvörðun þess efnis liggi fyrir og þess yrði ekki langt að bíða að fjórtán þúsund manna herlið Sýrlendinga hyrfi af líbanskri grundu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×