Erlent

Rússar bætast í hóp gagnrýnenda

Enn eykst þrýstingur á sýrlensk stjórnvöld að hverfa á brott með hersveitir sínar frá Líbanon. Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur nú bæst í hóp gagnrýnenda en hingað til hafa Rússar verið álitnir einir sterkustu bandamenn Sýrlendinga. Utanríkisráðherrar Arababandalagsins funda nú í Kaíró í Egyptalandi. Áhersla er lögð á að reyna að lægja öldurnar eftir morðið á Rafik Hariri, fyrrum forsætisráðherra Líbanons. Formaður bandalagsins, Amr Moussa, hvatti Sýrlendinga til að framfylgja loksins Taif-samkomulaginu sem gert var þegar borgarstyrjöldinni í Líbanon lauk árið 1989. Þá áttu Sýrlendingar að flytja 14.000 manna sveitir sínar nær eigin landamærum og hverfa á endanum alveg frá Líbanon. Það hefur ekki gengið eftir. Hvorki utanríkisráðherra Sýrlands né Líbanons tóku þátt í ráðstefnunni. Sýrlendingar hafa sagst ætla að flytja sveitir sínar til en af því hefur enn ekki orðið. Það sem þykir þó geta vegið jafnvel enn þyngra en þrýstingur nágrannalandanna er yfirlýsing Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands, um að sýrlenskar hersveitir eigi að koma sér heim, þó að nauðsynlegt sé að gæta þess að jafnvægi haldist í Líbanon. Rússar lofuðu að afskrifa rúmlega 600 af 830 milljarða króna skuldum Sýrlands við Rússa þegar Sýrlandsforseti fór í opinbera heimsókn til Rússlands í janúar. Sýrlensk stjórnvöld eiga því orðið í fá hús að venda í leit að stuðningi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×