Innlent

17 milljónir í einbýlishúsalóð

Menn buðu allt að 17,2 milljónir króna í lóðir fyrir einbýlishús í lóðaútboði fyrir þriðja áfanga í Norðlingaholti. Boðinn var út byggingarréttur á fjórtán lóðum fyrir fjölbýlishús, raðhús og einbýlishús og bárust 885 tilboð frá 123 fyrirtækjum og einstaklingum í lóðirnar. Ekki verður þó af því að borgaryfirvöld fái rúmar 17 milljónir fyrir einstakar lóðir. "Ég ætla að falla frá þessu tilboði, það var aðeins of hátt," segir Óli Þór Barðdal hjá Grandavör sem átti hæsta tilboðið í einbýlishúsalóðir. Nokkuð var um tilboð upp á tólf til fimmtán milljónir í einbýlishúsalóðir. Boðin eru töluvert hærri en í síðasta útboði. Hæsta tilboð í lóð fyrir tólf íbúða keðjuhús nam 111,4 milljónum króna, andvirði rúmra níu milljóna á íbúð. Hæst voru boðnar 120,5 milljónir í lóð þar sem byggja á samtengd tvíbýlishús með fjórtán íbúðum, tæpar níu milljónir á hús. Þá barst boð upp á 183 milljónir króna fyrir 27 til 30 íbúða fjölbýlishús og samsvarar það því að lóðaverð á hverja íbúð nemi sex til sjö milljón krónum. Helgi Hákon Jónsson í Eignakaupum er ekki í vafa um að þetta hátt lóðaverð geti leitt til verðhækkana um allt höfuðborgarsvæðið, ekki síst þegar tekið er tillit til hás verðs í lóðaútboði í Garðabæ fyrir skemmstu. "Það segir sig sjálft að hærri lóðaverð þýða hærri fasteignaverð," segir Helgi Hákon. "Svo er spurning: Hvað er upphaf og endir? Ef lóðirnar eru of dýrar þá ættu þær ekki að seljast." Stöðugar verðhækkanir hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. "Þetta kjaftar upp verðið. Það hlýtur að koma að því að markaðurinn mettist," segir hann og kveðst merkja örvæntingu meðal sumra sem eru búnir að selja en eiga eftir að kaupa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×