Sport

Með tilboð frá Hamburg

Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Hauka og íslenska landsliðsins í handknattleik, gæti óvænt verið á förum í atvinnumennsku. Hann æfði hjá þýska stórliðinu HSV Hamburg um daginn og fór heim með samning upp á vasann. „Þetta gekk mjög vel og er spennandi dæmi enda eitt af stóru liðunum í Þýskalandi," sagði Birkir Ívar en HSV Hamburg situr í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Þeir hafa ekki boðið upp á ónýta markverði undanfarin ár en sænska goðsögnin Tomas Svensson hefur meðal annars varið mark liðsins í vetur en hann er á förum til Spánar í sumar. „Þeir eru að leita að markverði til þess að spila með Júgganum sem er í markinu þeirra núna en hann er kominn á aldur og ætlar að hætta eftir næsta tímabil. Ég sendi þeim gagntilboð og boltinn er á milli félagsins og umboðsmanns míns. Ég á von á því að þetta skýrist um helgina. Annars hefur mér ekkert legið neitt á að komast út en þetta dæmi var of spennandi til þess að sleppa því." Birkir Ívar neitaði því ekki að hann væri talsvert spenntur og hann gerir sitt besta þessa dagana til þess að ýta stressinu til hliðar og einbeita sér að sínu daglega starfi og að spila með Haukunum.„Vissulega er maður spenntur. Ég ákvað að skipta mér ekkert af þessu og umbinn minn veit hvað ég vil fá. Ef hann nær því verður af þessu. Annars nenni ég ekki að hugsa of mikið um það," sagði Birkir Ívar Guðmundsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×