Innlent

Vill ekki slíta R-listasamstarfi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur ekki undir skoðun ungra jafnaðarmanna í Reykjavík um að slíta beri R-listasamstarfinu þótt hún telji Samfylkinguna hafa alla burði til þess að bjóða fram í eigin nafni í borgarstjórnarkosningum. Í ályktun sem ungir jafnaðarmenn í Reykjavík samþykktu á aðalfundi í gærkvöldi er skorað á Samfylkinguna að bjóða fram í eigin nafni í borgarstjórnarkosningunum sem haldnar verða vorið 2006. Þeir benda á að samstarfið innan Reykjavíkurlistans hafi verið farsælt en tími sé kominn fyrir Samfylkinguna til að draga sig út úr samstarfinu. Flokkurinn sé stór og hafi átt mikilli velgengni að fagna í höfuðborginni eins og úrslit síðustu alþingiskosninga sýni. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að ályktunin sé ágæt en hún segist ekki viss um þetta sé sú leið sem flokkurinn eigi að fara. Þeir sem standi að Reykjavíkurlistanum hljóti að athuga hvort það sé ekki grunnur fyrir áframhaldandi samstarfi því þar með verði félagshyggjuflokkunum haldið í meirihluta í borginni en það sé ekki gefið ef flokkarnir bjóði fram hver í sínu lagi. Hins vegar hafi Samfylkingin fulla burði til að bjóða fram ein og sér. Ingibjörg telur aðspurð að flokkarnir þrír sem standi að Reykjavíkurlistanum hljóti fyrst að ræða saman og sjá hvort þeir eigi málefnalega samstöðu og hvort flötur sé á áframhaldandi samstarfi áður en ákvarðanir séu teknar um annað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×