Erlent

Hryðjuverkalögin samþykkt

Ströng og umdeild hryðjuverkalög voru samþykkt á breska þinginu í gær eftir langar og sögulegar deilur þingmanna og stjórnar. Tony Blair gaf eftir í gær og bauð þingmönnum málamiðlun í deilunni um hryðjuverkalagafrumvarp stjórnvalda. Eftir þrjátíu klukkustunda maraþonfundi máttu lávarðarnir í Lávarðadeildinni sem og óbreyttir þingmenn loksins fara heim. Þingmenn hafa ekki setið jafnlengi við í hartnær öld. Allir virtust í gær vera á því að þeir hefðu haft betur í slagnum. Blair fékk lögin sín samþykkt en stjórnarandstaðan fékk einnig sínu framgengt því lögin verða tekin til endurskoðunar að ári. Málamiðlun Blairs fólst í því að stefna að endurskoðun eftir rétt ár, en lögin falla þó ekki sjálfkrafa úr gildi eftir þann tíma eins og stjórnarandstaðan krafðist. Þingmenn hafa nú tíma og ráð til að endurskoða lögin og jafnvel leggja fram frumvarp til nýrra laga sem kæmi í stað núverandi laga að ári. Um leið og lögin voru samþykkt tóku stjórnvöld til við að notfæra sér ákvæði þeirra, einkum til að tryggja að engin hætta stafaði af tíu fyrrverandi föngum sem haldið hafði verið án dóms og laga vegna gruns um aðild að hryðjuverkum. Þeim var sleppt í gær en dómari setti ströng skilyrði um eftirlit sem byggja á eldri hryðjuverkalögum sem runnu út í gær. Innanríkisráðherra Bretlands, Charles Clarke, má samkvæmt lögunum leggja kvaðir á grunaða en dómstóll verður að staðfesta aðgerðirnar innan viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×