Erlent

Bandaríkjamenn heimila árásina

Árás á Íran er í bígerð í Ísrael. Verði stjórnvöld í Teheran ekki við kröfum um að auðgun úrans verði hætt eru Bandaríkjamenn fúsir að heimila árásina. Breska blaðið Sunday Times greinir frá árásarplönum Ísraelsmanna í dag og segir að ríkisstjórn Ariels Sharons hafi samþykkt þau á fundi í síðasta mánuði. Hugmyndirnar hafi verið kynntar bandarískum ráðamönnum sem gefið hafi fyrirheit þess efnis að ekki yrði staðið í vegi fyrir hernaðaraðgerðum Ísraels gegn Íran, hefðu öll önnur ráð verið reynd fyrst. Hermt er að áætlunin sé tilbúin og gerir ráð fyrir árás sérsveita á landi og F-15 orustuþotna úr lofti, en þær eiga að varpa kröftugum sprengjum á kjarnorkuver Írana. Í vikunni tilkynntu Bandaríkjamenn að þeir ætluðu að taka höndum saman við Evrópuþjóðir um sameiginlega stefnu gegn Íran og buðu þeim ívilnanir, gegn því að auðgun úrans yrði hætt. Íranar hafa hafnað tilboðinu og síðast í dag var haft eftir háttsettum embættismanni í Íran að Bandaríkjamenn sæu ofsjónir, héldu þeir virkilega að Íranar létu undan þrýstingi. Úranauðgun hefur þó verið hætt í bili, þangað til að viðræður Írana við fulltrúa Evrópusambandsins hafa skilað árangri eða slitnar upp úr þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×