Sport

Þrjú þýsk lið í undanúrslit

Það gekk betur hjá þýsku handboltaliðunum í EHF-bikarnum heldur en í meistaradeildinni um helgina því á meðan öll þýsku liðin þrjú duttu út úr átta liða úrslitum meistaradeildarinnar komu þrjú áfram í undanúrslit EHF-bikarsins. Lemgo, Flensburg og Kiel sátu öll eftir með sárt ennið í meistaradeildinni en Magdeburg, Lemgo og Gummersbach komust öll inn í undanúrslit EHF-keppninnar en auk þeirra er rússneska liðið Lukoil-Dynamo Astrakhan í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin í vikunni. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 7 mörk og var markahæstur þegar Essen vann níu marka sigur á spænska liðinu Granollers, 34-25, og tryggði sér örugglega sæti í undanúrslitunum en þangað komst líka Gummersbach eftir níu marka sigur á ungverska liðinu Dunaferr SE, 30-21. Essen náði jafntefli í fyrri leiknum á Spáni og var því í mjög góðum málum en Guðjón Valur og félagar gerðu gott betur en það og unnu mjög góðan sigur. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Magdeburg léku sér að Degi Sigurðssyni og félögum í austurríska liðinu Bregenz HB í seinni leik liðanna og unnu 16 marka sigur, 41-25, en Magdeburg hafði unnið tveggja marka sigur í Austurríki um síðustu helgi. Arnór Atlason skoraði eitt mark fyrir Magdeburg en Pólverjinn Karol Bielecki var markahæstur í liðinu með 9 mörk. Magdeburg-liðið skoraði 20 mörk í fyrri hálfleik og verður að teljast mjög sigurstranglegt í keppninni en liðið er nú í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en hin liðin tvö sem tryggðu sér áfram eru í 6. (Essen) og 8. sæti (Gummersbach).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×