Innlent

Vilja allar þjóðleiðir á láglendi

Þrír þingmenn Frjálslynda flokksins lögðu fram þingsályktunartillögu á Alþingi í dag um að allar helstu leiðir á þjóðvegi 1, Vestfjörðum og norðausturhorni landsins verði á láglendi, eða undir 200 metra hæð yfir sjó. Lagt er til að Vegagerðinni skuli falið að vinna tillögur þessa efnis. Í tillögunni kemur fram að leggja skuli til grundvallar aukið öryggi og styttingu á leiðum milli suðvesturhornsins og annarra landssvæða annars vegar og innan landssvæða hins vegar. Megináhersla er lögð á jarðgöng og þverun fjarða en horft er til mesta mögulega sparnaðar miðað við 50 ára notkun mannvirkja. Þá er lagt til að sparnaður samfara nýju vegakerfi verði reiknaður út, til dæmis vegna flutnings á raforku og heitu vatni, auk hugsanlegrar fækkunar flugvalla og hafskipahafna. Flutningsmenn frumvarpsins, Guðjón Arnar Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson, telja að öllum þjóðleiðum megi koma á láglendisvegi með gerð innan við 20 jarðganga sem samtals yrðu um 100 km löng eða styttri. Jarðgöng til Vestmannaeyja eru ekki inni í áætluninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×