Adriano með þrennu og Inter áfram
Inter Milan frá Ítalíu er komið í 8 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Evrópumeisturum Porto í síðari leik liðann í 16 liða úrslitunum. Brasilíumaðurinn Adriano skoraði öll mörk heimamanna. Hann kom Inter yfir strax á 6. mínútu og síðara markið á 64. mínútu. Jorge Costa minnkaði muninn fyrir Porto á 69. mínútu en Adriano fullkomnaði þrennuna og gulltryggði sigurinn á 87. mínútu. Liðin skildu jöfn 1-1 í fyrri leiknum í Portúgal og er samanlagður sigur Inter því 4-2. Inter verður því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin á föstudag. Leikurinn gat ekki farið fram á sama tíma og hinir leikirnir í 16 liða úrslitunum fyrir viku þar sem AC Milan, sem notar sama heimavöll, San Siro, lék þá heimaleik sinn gegn Man Utd.