Innlent

Minnir á meðferð nasista

Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis, tekur undir með samferðarmanni sínum í Palestínu, Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, að ástandið minni á meðferð nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöld. Fimm íslenskir þingmenn hafa verið á ferð um Palestínu og Ísrael frá því á sunnudag í síðustu viku þar sem þeir hafa kynnt sér ástandið í löndunum. Jónína segir að það hafi verið mikil upplifun að koma á svæðið og verða vitni að þeirri miklu spennu sem eigi sér stað á milli Palestínumanna og Ísraela. Segja megi að aðstæður og aðbúnaður Palestínumanna, hvernig þeir séu lokaðir af, hafi mikil áhrif á andlegt ástand fólks, sem og efnahagslífið sem var erfitt fyrir. „Bændur eru lokaðir af frá byggðakjörnum og akurlendinu sem er fyrir utan,“ segir Jónína. Jónína segir mjög sláandi og óhugnanlegt að sjá múrinn sem Ísraelsmenn hafi reist. Hann sé 8-12 metra hár með varðturnum, myndavélum og inngönguleiðum fyrir skriðdreka. Hún segist taka undir með Magnúsi Þór: þetta minni á gettóin á tímum nasista.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×