Sport

Stjarnan í undanúrslit

Stjörnustúlkur úr Garðabæ tryggðu sér í kvöld þáttökurétt í undanúrslitum DHL deildarinnar, þegar þær lögðu Gróttu/KR í oddaleik liðanna í Ásgarði. Stjarnan var betri aðilinn allan leikinn og það var fyrst og fremst hörku varnarleikur sem skóp sigur þeirra. Stjörnustúlkur komu harð ákveðnar til leiks og spiluðu stífan varnarleik og staðan um miðjan fyrrihálfleik var 5-0, Stjörnunni í vil. Staðan í hálfleik var 10-5 og varnarleikur beggja liða því í fyrirrúmi. Stjarnan hélt uppteknum hætti í síðari hálfleiknum og sigraði að lokum 22-16 og eru því komnar í undanúrslitin þar sem þær mæta ÍBV. Erlendur Ísfeld, þjálfari Stjörnunar var stoltur af varnarleiknum hjá sínu liði í leiknum. "Vörnin hjá okkur í kvöld gerði gæfumuninn og stelpurnar börðust rosalega vel. Ég vil nota tækifærið og þakka Gróttu/KR fyrir frábæra keppni og ég verð að segja það að þær komu mér á óvart með hetjulegri baráttu og stóðu sig ótrúlega vel. Nú verðum við bara að fá alla Garðbæinga í húsið í næsta leik og fylla kofann á móti ÍBV, það þýðir ekkert annað," sagði Erlendur eftir leikinn. Hjá Stjörnunni var Hekla Daðadóttir markahæst með 5 mörk, en þær Kristín Clausen og Anna Blöndal komu næstar með 4 mörk hvor. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Ragna Karen Sigurðardóttir voru atkvæðamestar í Gróttu/KR með 4 mörk hvor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×