Skoðun

NATO í þróun

Á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í Vilnius, höfuðborg Litháens, í lok síðustu viku kom skýrt í ljós hvernig stefna Bandaríkjamanna, forystuþjóðar NATO, og Rússa rekst að mörgu leyti á. Á fundinum voru teknar upp umræður innan bandalagsins um hugsanlega aðild Úkraínu að því. Þótt jafnframt hafi verið samþykkt ný samstarfsáætlun við Rússland er það ekkert launungarmál að rússneskir ráðamenn skynja það sem beina ógnun við öryggishagsmuni Rússlands að talað sé um að ytri mörk NATO færist frá vestur- að austurlandamærum Úkraínu, þ.e. upp að Rússlandi. Þegar stækkun NATO til austurs kom fyrst til tals á tíunda áratugnum, eftir fall Sovétríkjanna og upplausn Varsjárbandalagsins, var það lengi staðföst stefna Rússa að sætta sig við að fyrrverandi bandalagsríkin í Mið- og Austur-Evrópu gengju í NATO, en að ekki kæmi til greina að fyrrverandi Sovétlýðveldi gerðu það. Andstaða Kremlverja við NATO-aðild Eystrasaltslandanna þriggja var eftir þessu mikil. Að ráðherrafundur NATO skyldi nú haldinn í höfuðborg Litháens - og utanríkisráðherra Rússlands skuli mæta þangað einnig - er því sannkallað tákn um breytta tíma. Opinberlega segja núverandi stjórnvöld í Moskvu að Úkraínumönnum sé frjálst að ákveða það sjálfir hvort þeir sæki um aðild að NATO. En engum dylst að í Kreml líta menn á hugsanlega stækkun NATO austur að Krímskaga sem beina ögrun; sem áfanga af hálfu Bandaríkjamanna til að "girða Rússland inni". Í þessu samhengi má rifja upp, að stór hluti kjarnorkuvopnaskotsvöðva Sovétríkjanna sálugu og heimahöfn Svartahafsflota Rauða hersins voru í Úkraínu. Er George W. Bush Bandaríkjaforseti fer á fund Pútíns Rússlandsforseta í Moskvu í næsta mánuði mun hann eflaust reyna sitt ítrasta til að telja hinum rússneska kollega sínum trú um að því fari víðs fjarri að með nálgun Úkraínu og NATO sé verið að troða Rússum um tær. En ósennilegt er að orð Bush fái nokkru breytt um þessa skynjun manna í Kreml. Af tillitssemi við áhyggjur Rússa var í samþykkt NATO-ráðherranna í Vilnius aðeins talað um að auka öryggispólitísk samstarf við Úkraínu en ekkert nefnt um hugsanlega aðild. Og bandarískir ráðamenn hafa freistað þess að sefa Rússa með því að segja þeim að hugsanleg NATO-aðild Úkraínu væri langt undan, ef nokkurn tímann skyldi til hennar koma. Með hinum endurnýjaða samstarfssamningni reyndu NATO-leiðtogarnir að slá frekar á áhyggjur Rússa. Með samningnum er opnað fyrir fleiri sameiginlegar heræfingar NATO-ríkjanna og Rússlands, sem og fyrir þann möguleika að flytja megi NATO-hersveitir yfir rússneskt yfirráðasvæði. Þetta sýnir að kalt stríð er ekki í uppsiglingu. En augljóst er að spenna fer frekar vaxandi en hitt í samskiptum gömlu kaldastríðs-valdapólanna í austri og vestri. Þessi spenna kristallast ekki sízt í stefnunni gagnvart næstu grannlöndum Rússlands, sem áður voru hluti af Sovétríkjunum. Leiðarahöfundur danska blaðsins Politiken kallar þessi bitbein "tifandi tímasprengjur" sem hvorki NATO né Rússar viti hvernig eigi að höndla. Annað þessara bitbeina, sem var sérstaklega í sviðsljósinu á NATO-fundinum í Vilnius, var Hvíta-Rússland. Bandaríski utanríkisráðherrann Condoleezza Rice hitti þar fulltrúa hvít-rússnesku stjórnarandstöðunnar og lýsti því yfir að bandarísk stjórnvöld væru reiðubúin að styðja við stjórnarskipti í landinu. Rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov, sem hitti NATO-ráðherrana í Vilnius, sagði ræðu Rice vera "kaldastríðstal" og varaði við afskiptum af innanríkismálum Hvíta-Rússlands. En á næsta ári eiga að fara fram forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi. Í augum ráðamanna í Bandaríkjunum og Evrópu standa vonir til að þær kosningar gefi lýðræðissinnum tækifæri til að hrekja einræðisstjórn Lúkasjenkós frá, líkt og gerzt hefur á síðustu misserum í fyrrverandi Sovétlýðveldunum Úkraínu, Georgíu og Kirgisistan. Í öllum þessum tilvikum var spilltum valdhöfum steypt sem nutu stuðnings Kremlverja. Þrýstinginn að vestan á að Lúkasjenkó víki skynja þeir að því er virðist sem þrýsting gegn sér; áfanga að "innikróun" Rússlands af hálfu heimsveldisins vestan hafs og bandamanna þess í Atlantshafsbandalaginu. Af tillitssemi við þessa viðkvæmni ráðamanna í Moskvu kusu NATO-ráðherrarnir að sleppa því að svara beiðni nýju stjórnarinnar í Úkraínu um að vera tekin í hóp framtíðaraðildarríkja. Af sömu ástæðu hafa ráðamenn Evrópusambandsins hikað við að heita Úkraínu framtíðaraðild. Á þetta hik Vestursins að opna faðminn fyrir fleiri þjóðum í austri spila ráðamenn í Moskvu. Auðunn Arnórsson - audunn@frettabladid.is



Skoðun

Sjá meira


×