Sport

Lið ÍBV verður að stöðva Ramune

Lið Hauka í DHL-deild kvenna í handknattleik getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á ÍBV á Ásvöllum í kvöld. Haukastúlkur eru með afar vænlega stöðu eftir sigur í fyrstu tveimur leikjunum og unnu að auki báðar viðureignir liðanna á Ásvöllum í deildinni í vetur. Fréttablaðið fékk Kára Garðarsson, þjálfara Gróttu/KR, til að spá í viðureign kvöldsins. "Satt að segja þá vona ég að ÍBV vinni leikinn á morgun svona upp á einvígið að gera því handboltans vegna væri fúlt ef þetta færi 3-0," sagði Kári. "Það hefur komið mér á óvart að leikirnir hafa verið slakir og sérstaklega sá fyrsti. ÍBV var óheppið í síðasta leik og fór illa með mörg dauðafæri sem kostaði það leikinn." ÍBV lagði mikla áherslu á að stöðva Ramune Pekarskyte í fyrsta leiknum en í síðustu viðureign lék hún lausum hala og skoraði 11 mörk. Kári taldi lykilatriði fyrir Eyjastúlkur að leika 5-1 vörn og taka Ramune úr umferð. "Þær eru það lágvaxnar að þær eiga ekki roð í hana í 6-0 vörninni. Varnarleikurinn hjá ÍBV gekk ágætlega upp í fyrsta leiknum. Liðið fékk fá mörk á sig og Haukarnir voru í vandræðum sóknarlega á móti þessu varnarafbrigði." Kári sagðist alltaf hafa haft á von á að Haukastúlkur myndu bera sigur úr býtum. "ÍBV hefur heldur ekki gengið vel á Ásvöllum og ég er ekki ýkja bjartsýnn á að liðið nái að vinna í kvöld, styrkleikamunurinn er það mikill. Ég vona bara að við fáum góðan leik," sagði Kári Garðarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×