Carragher í sjöunda himni
Jamie Carragher, varnarjaxlinn í Liverpool, var í sjöunda himni eftir sigur Liverpool á Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á Anfield í kvöld, en Carragher var af mörgum talinn besti maður vallarins. ,,Félagið þrífst á kvöldum eins og þessu, en þau hafa verið tekin frá okkur undanfarin ár," sagði Carragher. ,,Við viljum allir koma félaginu aftur í þær hæðir sem það á heima í þannig að við eigum möguleika á að skapa okkar eigin sögu." ...og Carragher hélt áfram: ,,Ég er ekki búinn að átta mig á þessu ennþá. Þetta var frábært kvöld með stuðningsmennina á bakvið okkur, en þegar allt kemur til alls var þetta bara undanúrslitin. Bikarinn er ekki enn unninn." Aðspurður hvort boltinn hafi verið inn þegar Luis Garcia skoraði sigurmarkið svaraði Carragher: ,,Ég held að við höfum átt inni heppni gegn Cheslea. Hvort sem boltinn var inni eða ekki, það var bara komið að okkur að vera heppnir."