Innlent

Slegnir yfir rítalínnotkun barna

Landlæknir hætti að fylgjast með ávísunum á rítalín til barna og unglinga árið 2001. Þingmenn voru slegnir á Alþingi í dag yfir upplýsingum um umdeilt heimsmet íslenskra barna í notkun rítalíns.  Málið var rætt í upphafi þingfundar á Alþingi í morgun. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingar, fagnaði því að rannsaka ætti sérstaklega hvort ávísanir á þessi lyf og markaðssetning þeirra hefði farið úr böndunum. Hún spurði hvað væri eiginlega að gerast; hvort svona miklu fleiri íslensk börn væru með þessa sjúkdóma en börn annarrar þjóðar. Ásta sagði foreldra og kennara barna með hegðunar og geðraskanir hafa haft samband við sig og undrast hversu lítið þyrfi til að börn væru sett á sterk geðlyf og oft og tíðum yrðu þau sljó og vanvirk vegna neyslunnar. Hún sagði ekki nóg að gert bara með rannsókn heldur þyrfti að niðurgreiða sálfræðiþjónustu fyrir börn svo foreldrar ættu annan valkost en lyf. Ásta kvaðst hafa heyrt af níu mánaða stúlkubarni sem hafi verið gefið rítalín í forvarnarskyni því fjögurra ára bróðir hennar hafi verið greindur ofvirkur og settur á lyf, þrátt fyrir að framleiðandi lyfsins tæki það fram að það væri ekki ætlað börnum yngri en sex ára.  Drífa Hjartardóttir Sjálfstæðisflokknum spurði á hvaða leið við værum; hvort ekki væri hægt að leita annarra leiða en að setja nánast alla þjóðina á geðdeyfðarlyf. Jón Gunnarsson Samfylkingunni spurði hvort það gæti verið að við séum farin að sjúkdómsvæða eðlilega hegðun barns, barns sem í gamla daga var kannski kallað ódælt eða fyrirferðarmikið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×