Erlent

Samflokksmenn Blairs vilja afsögn

Þingmenn og aðrar áhrifamenn innan breska Verkamannaflokksins skora á Tony Blair forsætisráðherra að láta af embætti áður en þriðja kjörtímabil hans er á enda. Þótt Verkamannaflokkurinn hafi unnið sögulegan sigur í þingkosningunum á fimmtudag er niðurstaðan engu að síður áfall fyrir flokkinn þar sem hann hefur aðeins 66 sæta meirihluta á þingi í stað 161 sætis meirihluta áður. Frank Dobson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, er meðal þeirra þingmanna flokksins sem líta á Blair sem dragbít og hann telur best að hann segi af sér fyrr, frekar en síðar. Blair sagði fyrir kosningarnar að hann hygðist sitja út kjörtímabilið. Dobson gegndi embætti heilbrigðisráðherra í fyrstu ríkisstjórn Blairs eftir kosningarnar árið 1997. Hann sagði í viðtali við BBC-sjónvarpsstöðina að á meðan Blair væri áfram við stjórnvölinn væri ekki hægt að leggja út í mikilvægar sveitarstjórnakosningar sem fram fara á næsta ári. Annar þingmaður Verkamannaflokksins, John Austin, sagði í viðtali við breska blaðið Sunday Times að Blair hefði verið galli fremur en kostur fyrir flokkinn í nýafstöðnum kosningum. Austin sagði að Verkamannaflokkurinn þyrfti að taka upp kerfi Íhaldsflokksins þar sem þeir háttsettu innan flokksins létu leiðtogana vita hvenær væri tímabært fyrir þá að víkja. Þingmaðurinn Glenda Jackson segir í viðtali við bresku blöðin í dag að þjóðin hafi talað og skilaboð hennar séu skýr. Hún vilji að Blair víki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×