Innlent

Meirihluti á móti göngum

"Ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart að það skuli vera svona mikill munur á jákvæðri og neikvæðri afstöðu manna," segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, þegar niðurstöður úr nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins um Héðinsfjarðargöng voru borin undir ráðherrann. Í könnuninni kemur fram að tæplega 70 prósent þeirra sem afstöðu tóku eru á móti fyrirhuguðum göngum um Héðinsfjörð en um 30 prósent þeim hlynnt. Er andstaðan öllu meiri meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega 78 prósent en tæp 57 prósent íbúa á landsbyggðinni eru einnig mótfallnir framkvæmdinni. Sturla bendir á að öll umræða um göngin að undanförnu hafi verið á neikvæðum nótum og lítið heyrst í þeim sem hlynntir eru. "Ég vil minna á það að ákvörðun um Héðinsfjarðargöng var tekin í tengslum við kjördæmaskipanina og var liður í að efla Eyjafjarðarsvæðiið. En vonandi áttar þjóðin sig á því hversu mikilvæg göngin eru fyrir Eyjafjörð en einnig fyrir Skagafjarðarsvæðið því tenging úr Eyjafirði um Siglufjörð og Fljótin yfir í Skagafjörð mun stórefla þetta svæði í Skagafirði."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×