Erlent

Grikkir noti aðeins nafnið fetaost

Lögfræðilegur ráðgjafi við Evrópudómstólinn hefur lagt það til að Grikkir fái einir að kalla fetaost því nafni og hvetur dómstólinn til þess að vísa frá málum Dana og Þjóðverja sem einnig vilja nota heitið á sína framleiðslu. Forsaga málsins er sú að að árið 2002 komst framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þeirri niðurstöðu að aðeins mætti kalla tiltekinn ost sem framleiddur væri í Grikklandi fetaost líkt og Frakkar hafa einkarétt á nafninu kampavíni og og Ítalir á Parmaskinku. Þessu vildu Danir og Þjóðverjar ekki una þar sem þeir flytja út mikið af ostinum hvíta og fóru fram á það að Evrópudómstóll ógilti ákvörðunina. Lögfræðiráðgjafi dómstólsins er hins vegar ekki sammála þeim og segir fetaostinn tengdan Grikklandi órjúfanlegum böndum, en talið er að hann hafi verið búinn til þar í landi í um sex þúsund ár. Álit ráðgjafans er ekki bindandi fyrir dómstólinn en hann hefur þó fylgt ráðgjöfum sínum í áttatíu prósentum tilvika.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×