Innlent

Geta útskrifast án samræmds prófs

Menntamálaráðherra hefur breytt reglugerð tímabundið um samræmd stúdentspróf þannig að nemendur geti útskrifast stúdentar í vor án þess að hafa þreytt samræmd próf. Nemendur sem tóku samræmdu prófin eru ekki ánægðir með lausn ráðherrans. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir ástæðuna fyrir því að þessi leið hafi verið farin þá að skráningar í prófin hafi misfarist auk þess sem veikindi og aðrar ástæður komu í veg fyrir að sumir nemendur gátu tekið prófin. Hún hafi metið það þannig að tæknileg úrlausnarefni sem snerti útskrift eftir stúdentspróf eigi ekki að koma í veg fyrir að nemendur geti útskrifast. Þorgerður Katrín segir að um tímabundið ástand sé að ræða en segist ekki sammála því að lausnin sé ósanngjörn fyrir þá nemendur sem tóku prófin. Hún telji frekar að nemendur eigi að meta þau sem veganesti. Menn tapi aldrei á því að taka próf. En hvers vegna voru nemendur ekki settir í sjúkrapróf? Þorgerður Katrín segir að það sé vegna þess að reglugerð geri ekki ráð fyrir að fólk taki sjúkrapróf. Hún segir að ráðuneytið hafi orðið að bregðast hratt við þegar vandamálið kom upp og því hafi þessi leið verið valin. Aðspurð hvort ekki hefði verið hægt að bregðast hratt við og setja á sjúkrapróf segir Þorgerður að það taki drjúgan tíma að semja sjúkrapróf, jafnlangan tíma og önnur próf, og menn hafi metið það þannig að þetta væri heppilegri leið að þessu sinni. Útskriftarnemendur eru síður en svo ánægðir með ákvörðun ráðherra. Guðlaugur Atlason, nemi í MR, bendir á að sagt hafi verið við nemendur að skylda væri að taka lágmark tvö samræmd stúdentspróf til þess að geta útskrifast. Ef það sé ekki rétt skilji hann ekki til hvers verið sé að hafa prófin. Friðrik Árni Friðriksson, sem er einnig í MR, segir að honum finnist frekar asnalegt að þurfa að standa í samræmdum prófum en síðan breyti það engu fyrir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×