Innlent

10 milljarða króna vanskil

Foreldrar sem greiða meðlög með börnum sínum voru á þrettánda þúsund um síðustu áramót. Meira en helmingur þeirra var þá í vanskilum við Innheimtustofnun sveitarfélaga, liðlega 53 prósent. Þetta kom fram í svari Árna Magnússonar félagsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar og fleiri Samfylkingarþingmanna á alþingi í gær. Meira en fjögur þúsund foreldrar skulda meðlög með nærri níu þúsund börnum yngri en átján ára. Fram kom í máli ráðherra að mikill meirihluta meðlaga barna eldri en átján ára væri í vanskilum. Samtals nema vanskilaskuldir vegna barnsmeðlaga 10,3 milljörðum króna. Umbætur voru gerðar á innheimtu barnsmeðlaga árið 1996 og leyfist þeim sem lenda í vanskilum að semja um lægri greiðslur. Um fjórir af hverjum tíu þeirra sem lenda í vanskilum nýta sér þennan möguleika til að grynnka á skuldum sínum. Helgi Hjörvar fyrirspyrjandi sagði að skuldugir meðlagsgreiðendur væru í vítahring. Tekjur þeirra færu í skattskuldir og meðlög og þeir leiddust þar af leiðandi út í svarta vinnu. Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sagði að göt væru á velferðarkerfinu og tók dæmi af atvinnulausum föður sem greiddi meðlög með þremur börnum. Hann fengi fjögur þúsund krónur með hverju barni en borgaði um16 þúsund krónur í meðlag með hverju þeirra. Þannig færi helmingur 90 þúsund króna atvinnuleysisbóta í meðlög. Katrín Júlíusdóttir fyrirspyrjandi kvaðst forviða á því að meira en helmingur meðlagsgreiðenda væri í vanskilum. Undir það tók Helgi Hjörvar. "Aðgerðir hafa ekki skilað meiru en svo að það er algengara en ekki að vera í vanskilum," sagði Helgi. Árni Magnússon félagsmálaráðherra kvað ekki ætlunina að ráðast í aðgerðir nú en benti á að 40 prósent þeirra sem í vanskilum væru nýttu sér möguleika til að grynnka á skuldum sínum. Úrræðin frá 1996 hefðu skilað árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×