Innlent

Þingmenn ekki óþekktarlýður

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, stýrði sínum síðasta þingfundi í kvöld. Aðspurður hvernig honum væri innanbrjósts fyrir lokasprettinn í starfinu sagði hann það vera mikinn létti yfir því að vorið væri að koma. Hann stefnir á að fara norður í sveitina strax á föstudag þar sem hann ætlar m.a. að ganga um bakka Laxár. Minnistæðast frá ferli sínum sem þingforseti segir Halldór það líklega vera þegar hann settist fyrst í forsetastólinn. Hann kveðst ekki hafa neinar sárar minningar. Styr hefur staðið um Halldór sem þingforseti; spurður hvort þingmenn séu óþekktarlýður segist hann ekki vilja nota það orð. Á hinn bóginn telji hann óeðlilega mikið um það hér á landi að þingmönnum beini spjótum sínum að forseta þegar hann hafi ekkert um það að segja hver verði niðurstaða mála. Spurður um ráðleggingar til eftirmanns síns, Sólveigar Pétursdóttur, segir Halldór að best sé að stjórna fundum eftir því hvernig hún telji rétt og andinn innblæs henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×