Innlent

Hraðamet í afgreiðslu þingmála

Alþingi fór í sumarleyfi skömmu fyrir miðnætti í gærkvöld eftir að Halldór Blöndal, fráfarandi þingforseti, hafði slegið hraðamet í afgreiðslu mála. Alls varð 101 frumvarp að lögum á öllu þinginu og nítján þingsályktunartillögur voru samþykktar. Tuttugu og sjö frumvörp urðu að lögum í gær. Sigurður Jónsso,n aðstoðarforstöðumaður á þingfundasviði, segir að forseti Alþingis hafi náð fimm atkvæðagreiðslum á mínútu og slegið þar með nýtt met í sögu Alþingis. Meðal þess sem var lögfest voru ný samkeppnislög og tvö önnur frumvörp sem tengjast samkeppnismálum. Þá voru lögfestar breytingar á lögum um fjarskipti sem einnig höfðu valdið miklum deilum.  Halldór Blöndal var kvaddur, meðal annars með þeim orðum Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri - grænna, sem sagði að mörgum hafi þótt vita á stormasama sambúð hans við þingið hvernig hann hafi handleikið fundarhamarinn í upphafi forsetaferils síns frekar sem verkfæri til stórátaka en léttan smíðisgrip úr trjáviði. Það voru fleiri að hverfa frá sínu starfi en Halldór. Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lætur senn af þingmennsku og verður horfin á vit annarra starfa þegar þing kemur saman að nýju. Og það getur verið erfitt að kveðja, jafnvel þá sem ekki eru samherjar í pólitíkinni; Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokks, faðmaði Bryndísi vel og lengi eftir að þinginu var slitið í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×