Sport

Tite lofaður ríkisborgararéttur

Tite Kalandadze, fyrrverandi leikmanni ÍBV í handbolta var lofaður íslenskur ríkisborgararéttur af fulltrúum Stjörnunnar sem á miðvikudag náðu samkomulagi við leikmanninn um að leika með Garðabæjarliðinu næstu 2 árin. Svo segir Hlynur Sigmarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍBV í yfirlýsingu sem birt var á heimasíðu félagsins í gær, fimmtudag. En ÍBV missti ekki aðeins einn besta sóknarmann  nýliðins Íslandsmóts heldur einnig landsliðsmarkvörðinn Roland Eradze sem líka gekk í herbúðir Stjörnunnar. Roland og Tite fengu báðir mjög góðan samning. Tite fær 9 milljónir króna í árslaun en Roland 6 samkvæmt heimildum Vísis. Má því að leiðum líka að samanlagður kostnaður Stjörnunnar fyrir þessa tvo leikmenn út þetta 2 ára samningstímabil séu 30 milljónir króna. Hlynur kveðst vonsvikinn með að missa þessa sterku leikmenn og hann lætur gamminn geysa í yfirlýsingu sinni, enda ekki á hverjum degi sem heyrist af samningavopni eins og loforði um ríkisborgararétt. "Að auki var honum (Tite) tryggður íslenskur ríkisborgararéttur ef hann kæmi í Stjörnuna og sagði hann að sér hefði verið tjáð af þessum aðilum að það yrði mjög erfitt að fá íslenskan ríkisborgararétt væri hann um kyrrt í Eyjum og nefndi hann einstaklinga sem myndu tryggja honum ríkisborgararéttinn ef hann kæmi í Stjörnuna." sagði Hlynur m.a.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×