Innlent

Áfram unnið að álveri fyrir norðan

Stjórnvöld munu áfram vinna að því að álver rísi á Norðurlandi, segir Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra. Hún vonast til þess að samkomulagið sem undirritað var í gær þrýsti á Norðlendinga að sýna nauðsynlega samstöðu. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagðist í haust vonast til að stóriðjuframkvæmdir á Norðurlandi myndu fylgja í kjölfar uppbyggingar á Austurlandi. Hún viðurkenndi reyndar að það væri ekki hún heldur fjárfestar sem myndu ákveða staðsetningu næsta álvers en sendinefndir sex álfyrirtækja komu til landsins að skoða aðstæður í fyrra. Þar af fóru fjórar í Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur. Kom þetta samkomulag henni á óvart? Valgerður segist hafa vitað af því að þeir aðilar sem koma að hugsanlegu álveri í Helguvík hefðu ræðst saman en stjórnvöld komi ekki að þessu. Valgerður segist telja að ýmsar rannsóknir Norðanlands séu lengra komnar en á Suðurnesjum og þetta samkomulag setji Helguvík ekki í neinn forgang. Allt eins geti verið að álver rísi fyrir norðan um leið. Í skoðanakönnun sem gerð var til að kanna áhuga Norðlendinga á að fá álver í fjórðunginn kom í ljós að stuðningur við stóriðju var minni en búist var við. Einnig var áberandi hversu margir voru tilbúnir að styðja uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi, bara á meðan það væri ekki í þeirra eigin firði heldur einhvers staðar annars staðar á svæðinu. Valgerður vonar að Helguvíkursamkomulagið geti því að vissu leyti haft jákvæð áhrif og telur að samkomulagið geti orðið til þess að Norðlendingar átti sig betur á því að þeir verði að standa betur saman. Valgerður segir málið það stutt á veg komið á Suðurnesjum að hún vilji engu fagna í bili enda er þar álver fyrir. Hún vill fyrst og fremst að álver rísi á Norðurlandi og segir stjórnvöld hafa unnið að því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×