Innlent

Lengst í fríi á Norðurlöndum

Íslenskir þingmenn fá lengst sumarfrí allra þingmanna Norðurlandanna. Finnar fá styst frí, rúmar sex vikur, en Íslendingar rúmar tuttugu. Það er hefð á Alþingi Íslendinga að fresta þingi í maí. Þetta var víst upphaflega talið nauðsynlegt svo bændur í þingsölum kæmust heim í sauðburð og að sama skapi kemur þing ekki saman fyrr en í október á haustin svo allir séu nú búnir að heimta fé sitt af fjalli. Þetta fimm mánaða sumarfrí þýðir að það er oft handagangur í öskjunni á vorin eins og raunin varð nú. Halldór Blöndal þingforseti setti met í hraðafgreiðslu mála. En hvernig er þetta í löndunum sem við berum okkur sífellt saman við? Bæði norska Stórþinginu og danska Fólkaþinginu verður frestað á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní, og stendur sumarfríið í fimmtán til sextán vikur, fram til 5. október hjá dönskum þingmönnum og 11. október hjá Norðmönnunum. Sænskir þingmenn fá heldur styttra frí, frá 18. júní til 13. september, það eru rúmar tólf vikur. Finnskir þingmenn fá þó styst sumarfrí allra, en síðasti þingfundur er boðaður 22. júní og þing kemur aftur saman 6. ágúst. Það eru ekki nema rúmar sex vikur. Íslenskir þingmenn fá því lengsta sumarfríið. Þingi var frestað 11. maí og að öllu óbreyttu kemur það aftur saman 1. október. Það gerir rúmar tuttugu vikur. Það skal tekið fram að færeyska þinginu var frestað í gær en ekki fengust skýr svör um hvenær það kemur saman á ný. Einn bóndi er á þingi. Það er Drífa Hjartardóttir frá Keldum, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×