Innlent

Framtíðarhópur fái nýtt umboð

Framtíðarhópur Samfylkingarinnar kynnti í gær tillögur sínar til stefnumótunar innan flokksins í fjölmörgum málaflokkum. Kynntar voru tillögur sjö starfshópa sem starfað hafa síðan um áramót. Er þetta í annað sinn sem framtíðarhópurinn skilar tillögum af sér en fyrri lotan var kynnt á flokksstjórnarfundi í október síðastliðnum og verða þær tillögur teknar til afgreiðslu á landsfundinum á laugardag. Tillögurnar sem kynntar voru í gær verða hins vegar ekki teknar formlega fyrir á landsfundinum, heldur einungis kynntar og þeim síðan vísað til áframhaldandi meðferðar innan flokksins og til afgreiðslu á stefnuþingi flokksins næsta vetur. Gera má ráð fyrir að tillögurnar taki einhverjum breytingum í því ferli. Jafnframt verður lagt til að landsfundurinn samþykki að endurnýja umboð framtíðarhópsins og feli honum áframhaldandi vinnu við framtíðarstefnumótun flokksins fram að stefnuþingi. Málaflokkarnir sjö sem kynntir voru í gær eru: Lýðræði og jafnrétti, Velferðarríkið sem hagstjórnarhugmynd, Menning og listir – stefna um skapandi atvinnugreinar, Leikreglur viðskiptalífsins, Ísland í samfélagi þjóðanna, Mannauður, framsækni og jöfnuðurog Atvinnulíf, nýsköpun og hagvöxtur. Aðspurð segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður framtíðarhópsins erfitt að nefna eitthvað sérstakt í þessum tillögum sem henni þyki markverðast. "Það er hins vegar margt ferskt og skemmtilegt þarna á ferðinni og ný sýn á flesta málaflokka. Ef ég á að nefna eitthvað eitt umfram annað þá kom plaggið um menningarmál mest á óvart og á eflaust eftir að vekja talsverðar umræður", segir hún. Þar vísar hún til þess að í tillögum hópsins er meðal annars lögð áhersla á fjölbreytileika íslenskrar menningar, hvatt til að kraftar hennar verði virkjaðir og að þjóðernissinnuð einangrunarstefna sé vont veganesti inn í 21. öldina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×