Innlent

Deilur um stóriðju innan R-lista

Forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur var á síðustu stundu meinað að skrifa undir viljayfirlýsingu um álver í Helguvík. Ástæðan er ágreiningur R-listaflokkanna um stóriðjuuppbyggingu. Á opinberri mynd sem send var til fjölmiðla af undirskrift samkomulags milli Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja fyrir tíu dögum voru einnig fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur en þeir fengu ekki að skrifa undir, en í öllu undirbúningsferlinu hafði verið miðað við að Orkuveitan yrði með. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, segir að fyrirtækið hafi tekið þátt í því að undirbúa viljayfirlýsinguna. Þegar komið hafi að því að skrifa undir hafi málið í raun og veru ekki verið kynnt nema einu sinni í stjórn Orkuveitunnar og stjórnarformaður hennar hafi tjáð honum að það þyrfti að ræða málin aðeins betur. Orkuveitan væri í mörgum stórum framkvæmdum og stjórnarmenn vildu því ræða málið betur áður en skrifað yrði undir. Guðmundur segir að hann hafi ekki talið rétt að tefja viljayfirlýsingu Norðuráls og Suðurnesjamanna með því að Orkuveitan væri ekki tilbúin að skrifa undir. Heimildarmenn Stöðvar 2 segja að pólitískur ágreiningur innan R-listans, m.a. andstaða Vinstri - grænna við stóriðjuppbyggingu, hafi stöðvað málið. Guðmundur segir að hann hafi fengið þau skilaboð frá stjórnarformanni OR að menn vildu ræða málið betur og horfa á heildarmyndina í framkvæmdum og orkusölu hjá Orkuveitunni. Á meðan flokkarnir sem standa að R-listanum takast á um stóriðjupólitík eru þeir sem stýra daglegum rekstri í höfuðstöðvum Orkuveitunnar ekki í vafa. Þeir vilja taka þátt í því að virkja fyrir fleiri álver. Guðmundur segir að Orkuveitan hafi hvorki sagt sig frá orkuöflun fyrir álver í Helguvík né lýst því yfir að hún ætli ekki að vera með. Forsvarsmenn veitunnar hafi einfaldlega ekki viljað tefja málið á þessari stundu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×