Innlent

Aukinn stuðningur geri bæinn betri

Fyrsta verk Gunnars Einarssonar, nýs bæjarstjóra í Garðabæ, var að tilkynna um auknar niðurgreiðslur með börnum hjá dagforeldrum og í einkareknum leikskólum. Tímamótaskref til að gera bæinn betri, segir Gunnar. Við bæjarstjóraskiptin afhenti Ásdís Halla Bragadóttir, fráfarandi bæjarstjóri og verðandi forstjóri BYKO, Gunnari völuskrín úr svínaþvagblöðru sem hún sagði að innihéldi lykil að verkefnum bæjarstjórnar. Að því loknu greindi nýi bæjarstjórinn frá samþykkt bæjarstjórnar um breytingar á gjaldskrám vegna þjónustu dagforeldra og einkarekinna leik- og grunnskóla þar sem markmiðið er að stuðla enn frekar að valfrelsi, jafnrétti og fjölbreytni. Samkvæmt breytingunum hækka niðurgreiðslur með börnum hjá dagforeldrum úr 11 þúsund krónur í 40 þúsund krónur á mánuði frá eins árs aldri. Niðurgreiðslur með börnum í einkareknum leikskólum hækka úr 33 þúsund krónum í rúmlega 38 þúsund og hefjast greiðslur frá eins árs aldri í stað eins og hálf árs áður. Þá verður tekinn upp systkynaafsláttur þannig að foreldrar fái afslátt fyrir barn á leikskóla eigi það annað systkin sem er hjá dagforeldri. Greiðslur með börnum í einkareknum grunnskólum hækka samkvæmt breytingunum úr rúmlega 400 þúsund krónum í rúmlega 500 þúsund. Gunnar segir að bæjaryfirvöld séu fyrst og fremst að hugsa um vellíðan íbúanna og þau lífsgæði sem þau vilji skapa í Garðabæ. Þau séu mikil en bæjarstjórnin vilji gera enn betur. Gunnar segir enn fremur að um tímamótaskref sé að ræða því verið sé hefja greiðslur frá eins árs aldri, sem sé metnaðarfullt, ásamt því að ýta undir fleiri rekstarform. Bærinn vilji draga fram dagforeldra sem góðan kost.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×