Innlent

Hugmyndir geti leitt til hækkana

Borgarstjóri segir líklegt að lóðaverð hækki með þeim miklu framkvæmdum sem tillögur sjálfstæðismanna um nýtt skipulag í borginni hefðu í för með sér. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri,segist fagna því að sjálfstæðismenn leggi fram tillögur um byggð í Reykjavík en telur þær vera óljósar. Hún furðar sig á því að um leið og sjálfstæðismenn ætli sér að fjölga íbúum um 30 þúsund séu engar tillögur gerðar um Vatnsmýrarsvæðið. Steinunn segir gott að fá loks uppbyggilegar hugmyndir frá sjálfstæðismönnum en það veki athygli að þær séu óljósar og virðist vera hugsaðar til langrar framtíðar. Henni finnist þetta einnig velta upp ákveðnum spurningum um lóðaverð miðað við þær miklu fjárfestingar sem fara eigi í varðandi brýr og göng. Þetta gæti sprengt upp lóðaverð sem mörgum þyki nógu hátt í dag. Þá segir Steinunn að það veki einnig athygli að ekkert sé fjallað um byggð í Vatnsmýri. Henni finnist ansi mikið í lagt að finna svæði undir 30 þúsund manna byggð með þessum hætti en líta alveg fram hjá Vatnsmýrinni. Aðspurð hvort hugmyndirnar séu svipaðar því sem Samfylkingin eða R-listinn hugsi segir Steinunn að þetta sé mjög í anda þess sem R-listinn hafi bent á. Hugmyndir um Örfirisey hafi t.d. verið kynntar sem trúnaðarmál í hafnarstjórn á sínum tíma og greinilegt sé að þeir geri hana að sinni tillögu nú. Því fagni hún. Aðspurð hvort það verði erfitt fyrir Reykjavíkurlistann að toppa þessar tillögur segir Steinunn að málið snúist ekki um að toppa eitt eða neitt. R-listinn hafi lagt áherslu á þéttingu byggðar og að byggja í Vatnsmýrinni og hún ítreki furðui sína á því að sjálfstæðismenn skuli ekki horfa til Vatnsmýrarinnar í tillögum sínum að uppbyggingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×