Erlent

Kosið um arfleifð Hariri

Líbanar ganga í dag að kjörborðinu og kjósa sér nýtt þing í fyrsta sinn eftir að Sýrlendingar hurfu frá landinu með hermenn sína og leyniþjónustu. Kosningarnar eru haldnar í skugga morðsins á Rafik Hariri, fyrrum forsætisráðherra Líbanons, sem var ráðinn af dögum í febrúar. Ganga sumir svo langt að segja að kosningarnar snúist í raun um arfleifð forsætisráðherrans fyrrverandi. Stór veggspjöld með myndum af Hariri víða í höfuðborginni styrkja þetta viðhorf. Afstaðan til samskipta Líbanons við Sýrland hafa einnig mikið að segja um úrslitin. Í höfuðborginni er meiri andstaða við Sýrlendinga en í suðurhluta landsins þar sem Hezbollahskæruliðar eru áhrifamiklir, þeir hafa notið stuðnings Sýrlendinga. Fleira hefur þó áhrif einkum og sér í lagi ætterni og fjölskyldutengsl sem hafa mikið að segja í líbönskum stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×