Innlent

Vísar gagnrýni borgarstjóra á bug

Leiðtogi sjálfstæðismanna í Reykjavík vísar alfarið á bug gagnrýni borgarstjóra á hugmyndir þeirra um framtíðarskipulag í borginni. Þær byggist hvorki á hugmyndum annarra né leiði til hærra lóðaverðs. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, segir að gagnrýni borgarstjóra á hugmyndir sjálfstæðismanna um framtíðarskipulag í borginni sé fráleit. Steinunn Valdís Óskarsdóttir beri saman vatn og olíu þegar hún fullyrði að þeir hafi að ákveðnu leyti gert tillögur annarra að sínum. Steinunn sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að hugmyndir sjálfstæðismanna væru mjög í anda þess sem R-listinn hefði bent á. Hugmyndir um Örfirisey hefðu t.d. verið kynntar sem trúnaðarmál í hafnarstjórn á sínum tíma og greinilegt væri að þeir gerðu þær að sinni tillögu nú. Því fagnaði hún. Vilhjálmur segir sjálfstæðismenn hafa unnið að framtíðarsýn fyrir Reykjavík lungann úr kjörtímabilinu og stofnaður hafi verið hópur vegna þess fyrir einu og hálfu ári. 16. júní í fyrra hafi fjórir arkitektar lagt fram hugmyndirnar um byggð í Örfirisey, Akurey og Engey. Borgarstjóri fari því með hrein ósannindi. Vilhjálmur segir enn fremur að það séu nákvæmlega tveir mánuðir í dag síðan honum hafi verið kynntar sem hafnarstjórnarmanni hugmyndir um ákveðna íbúðauppbyggingu í Örfirisey, þe.a.s. að breyta þar atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Svo tali R-listinn um að þetta séu hugmyndir hans en það sé ekki rétt. Hugmyndirnar hafi komið utan úr bæ frá hagsmunaaðilum og fasteignafyrirtækjum. Borgarstjóri sagði líka að framtíðarskipulag sjálfstæðismanna leiddi til hærra lóðarverðs ef það yrði að veruleika. Vilhjálmur mótmælir því og segir að ef eitthvað gerist þá lækki fasteignaverð. Fasteigna- og lóðaverð í Reykjavík sé orðið óheyrilega hátt og hafi hækkað um mörg hundruð prósent á síðustu fjórum árum. Lóðaverð hjá höfninni hafi ávallt verið lægra en hjá borginni og samt hafi það verið innheimt í samræmi við kostnað hafnarinnar af landfyllingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×