Innlent

Auglýstur að nefnd forspurðri

Ríkisstjórnin ákvað að auglýsa Búnaðarbankann til sölu um leið og Landsbankann að einkavæðingarnefnd forspurðri. Þetta segir í úttekt Fréttablaðsins á sölu ríkisins á bönkunum. Formaður Vinstri grænna krefst opinberar rannsóknar. Forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og bankamálaráðherra hafi breytt auglýsingu frá einkavæðingarnefnd um sölu Landsbankans og fyrst þá hafi nefndinni orðið ljóst að selja ætti báða bankana samtímis. Þetta hafi valdið vonbrigðum í Samson-hópnum, sem síðar eignaðist Landsbankann, sem gerði ráð fyrir að fá forskot á þá fjárfesta sem kaupa mundu Búnaðarbankann. Önnur sjónarmið en verðtilboð lágu lengi framan af til grundvallar vali á kaupendum bankanna því að á lokafundi fjárfesta með einkavæðingarnefnd hafði ekki enn verið fært í tal hvaða hugmyndir hóparnir gerðu sér um verð. Deilt var innan einkavæðingarnefndar um hvert vægi verðið ætti að hafa við lokaákvörðunina en Samson átti lægsta tilboðið í Landsbankann. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vill ítarlega rannsókn á málinu og segir að um hrossakaup af verstu tegund hafi verið að ræða. Beitt hafi verið pólitísku handafli til að stýra bönkunum í hendur þóknanlegra aðila en ríkisstjórnin hafi lengi tileinkað sér slík vinnubrögð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði aðspurð hvort hún vildi rannsókna að málið væri enn á borði fjárlaganefndar og að hún vildi bíða niðurstöðu hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×